Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er meðal hinna fremstu í þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem fram kom á áttunda áratugi síðustu aldar. Í vinnu sinni nýtir hann sér fjölbreytta miðla, þar á meðal ljósmyndun, teiknimyndir, myndbönd, málun, skúlptúra, gjörningalist, skrif og innsetningar. Efnisvalið er álíka fjölbreytt; hann sækir innblástur í jafn ólíkar áttir og þjóðsögur, Íslendingasögur, tískutímarit, trúarbrögð, hjátrú, krítíska teoríu og margs konar annað efni úr samtímanum, í meðförum hans skarast þau á margræðum tengipunktum þannig að úr verða marglaga verk, á stundum rugla þau mann í ríminu en í þeim birtist ævinlega skýr og óvænt sýn á þau viðfangsefni sem unnið er með.
Steingrímur á að baki yfir hundrað einkasýninga og samsýninga, á Íslandi og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Reykjaness, Nýlistasafninu, Gerðarsafni, Listasafninu á Akureyri, Den Haag Gemeente Museum, Royal College of Art (London), Mücsarnok (Budapest), Centre International d’Art Contemporain (Carros, Frakklandi), Meilahti Art Museum, (Helsinki), Henie Onstad Kunstcenter (Osló) og Feneyjartvíæringnum 2007. Hann hlaut sjónlistarverðlaunin árið 2008 fyrir sýningu sína á Feneyjatvíæringnum og var tilnefndur Myndlistarmaður ársins 2021, tilnefndur ti lCarnegie Art Award 2004 og aftur 2006 og hlaut Menningarverðlaun DV fyrir myndlist árið 2002.