Pareidolia

Samræður Steingríms Eyfjörð

Fjórir áratugir eru langur tími í myndlist og á þeim tíma hefur Steingrímur Eyfjörð átt í samræðum við ýmsa strauma og stefnur, haldið sýningar og tekið þátt í samvinnuverkefnum, unnið með samtímann og söguna og velt fyrir sér lífinu og listinni. Verk hans snúast gjarnan um skynjun okkar, upplifun og skilning. Það er auðvitað ekki nýtt í myndlist – á einn eða annan hátt mætti segja að öll myndlist reyni að fjalla um þessi viðfangsefni – en sýningar Steingríms skera sig úr vegna þess að í þeim er alltaf varpað fram mörgum og stundum ósamrýmanlegum svörum við spurningunum. Hann veltir fyrir sér vandamálunum og leitast við að skoða þau frá ýmsum sjónarhornum. Oft leitar hann til annarra um álit, vitnar í aðra og hefur jafnvel fengið aðstoð miðla til að fá þátttakendur „að handan“ inn í samræðuna. Þegar þessi háttur er hafður á kemur í ljós að jafnvel hversdagslegir hlutir horfa ólíkt við eftir sjónarhorni hvers og eins. Stundum er jafnvel eins og alls ekki sé um sama hlutinn að ræða heldur eins konar safn af hugmyndum og missýnum, eða jafnvel misskilningi. Við sjáum það sem við viljum eða vonumst eftir að sjá og tilraunir okkar til að skilja veröldina leiða til endalausra rangtúlkana.

Þar er Steingrímur á heimavelli því það er einmitt þessi skapandi mistúlkun sem verður honum að efnivið í verk sín og sýningar. Pareidolia er fræðiheitið yfir það þegar við horfum á eitthvað sem við þekkjum ekki en þykjumst geta séð eitthvað kunnuglegt úr því. Þetta á t.d. við um það þegar við sjáum andlit í hrauni eða dýramyndir í skýjunum, en það getur líka þýtt að við lesum í flóknari þætti tilverunnar og sjáum í þeim aðeins skýrar línur hugmyndanna sem við vorum þegar sannfærð um. Pareidolia getur þannig verið saklaus leikur barna sem horfa á skýin en gamanið gránar þegar pareidolian fer að einkenna nálgun fólks við alvarlegri viðfangsefni, t.d. pólitík eða samfélagsmál.

Verk Steingríms Eyfjörð eru fyrst og fremst samtöl þar sem ólíkri reynslu og skoðunum er teflt fram og reynt að rekja í þeim þræðina. Viðfangsefnin koma úr ýmsum áttum, þræðirnir liggja víða og allt virðist eiga erindi í samtal Steingríms: Samfélagsmál, sálfræði, hindurvitni og hjávísindi, sögur, myndlist og bókmenntir. Þetta er díalektísk aðferð þar sem leitin að tengingum og skilningi er samkomulagsatriði milli ólíkra sjónarhorna frekar en að hún lúti einni röklegri reglu. Vinnsla og frágangur verkanna virðist líka vera samræða milli ólíkra leiða og miðla. Þótt texti í einhverri mynd hafi lengi verið gegnumgangandi hefur Steingrímur líka búið til skúlptúra af ýmsu tagi og innsetningar, unnið með teiknimyndaformið, og notað bæði ljósmyndir og vídeó. Sem gestir á sýningum Steingríms göngum við inn í samræðuna og tökum þátt í að opna hana eins og Steingrímur gerir sjálfur.

Jón Proppé

 

 

Cold War 1, 2017
Enamel and spray paint on aluminium
150 x140 cm
SE0050

 

Scroll to Top