Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður á í list sinni í samræðu við samfélög þá og nú, lifandi og liðna, við sjálfan sig og við listaverkin sín. Hann talar við listaverkin í formi texta innan myndflatar þeirra á meðan hann skapar þau og beinir stundum spurningum til eða vísar í samtöl við vini sína í gegnum textahluta þeirra. Verkin tala á móti við hann og eru oft jafnvel sjálfsgagnrýnin og sjálfshæðin. Endurómur samræðnanna á sér svo gjarnan framhaldslíf í ógerðum verkum hins þekkingarþyrsta listamanns. Uppspretta þessa innra samtals er trú hans á ókönnuðum tengingarmöguleikum á milli margvíslegs framlags fólks, lærðs og leikins, til heimsþekkingarinnar.
Í þessum samræðum öllum leggur listamaðurinn sjálfur línurnar og heilmikla þekkingu til, sem hann safnar að sér á afar opinn máta, laus við allt stigveldi og línulega formfestu. Við þekkingarleit og skarplega úrvinnslu á flóknu orkukerfi hlutanna temur Steingrímur sér að hamfletta sig reglulega fiðruðum þunga fyrirframgefinna hugmynda, viðtekinna gilda og sinna eigin væntinga og annarra til sín. Hann einfaldlega lítur á blálitaðan hlut og gefur sér leyfi til að hugsa „blátt“, tengir svo hugsunina jafnvel yfir í Indigó indverskrar táknfræði eða bláma fjarlægðarinnar í arabískri ljóðagerð, svo blái hluturinn verður þriðja augað – tengingin, gyðjan Kali, Ljóðaljóðin, Parsifal og hið heilaga gral, hafið og þorskastríðið, Kabbojahattur og græna kakan, Grýla, Venus eða ósýnileg kind.
Í verkum Steingríms á sýningu hans Wittgenstein? & Félag um lifandi þjóðtrú koma fyrir textabrot og myndefni er vísa annarsvegar til íslenskrar þjóðtrúar og hinsvegar til skrifa heimspekingsins Ludwigs Wittgenstein, nánar tiltekið til rits hans, Bemerkungen über die Farben (Nokkur orð um liti), er hann ritaði ári fyrir andlát sitt, 1950. Í ritinu veltir Wittgenstein vöngum yfir tengslum sjónskynsins, lita, rökhugsunar og tungumálsins, þáttum er hann hafði skrifað um í gegnum allan sinn feril. Hann skoðar „gráa“ svæðið þar sem hugurinn tekur við af því sem augað nemur, af myndfleti eða í umhverfinu, þá liti er við teljum okkur skynja en eru í raun ekki til staðar og eru hugarsmíð okkar.
Í anda Wittgensteins spyr Steingrímur í eigin verki frá árinu 1978: „Er til litur sem er ekki til?“ og tengir slíkar spurningar þá og nú við það samkomulag mannkyns um að það sem er til sé um leið tilbúningur. Samkomulagið tengir hann einnig við hina lifandi þjóðtrú og andaheiminn sem við ekki sjáum og fáir upplifa teikn um. Verkið frá 1978 var þátttökuverk, þ.e. upplifun verksins átti sér stað með því að horfa og lýsa í orðum því sem skynjað væri þar til samræðan leiddi til samkomulags um lit sem ekki væri til.
Í tveimur ljósmyndum verka á sýningunni koma fyrir íslenski þjóðsagnasafnarinn Jón Árnason (1819-1888) og rússneski þjóðsagnafræðingurinn Vladimir Propp (1895-1970) en skilgreiningakerfi Propps og skrif um formgerð þjóðtrúar höfðu m.a. sterk áhrif á marga af helstu heimspekingum 20. aldarinnar.
Í verkum sýningarinnar, sem gerð eru á árunum 2021-22, á Steingrímur í samtali við Wittgenstein, listina sjálfa sem fyrirbæri og sjálfan sig um fjórðu víddina, skynjun lita og ímyndunaraflið sem hið sterka afl er mannkynið virkjar í auknum mæli með þróun myndrænnar tækni sl. alda.
Í litríkum verkunum koma fyrir nokkurskonar blindpunktar (e. blind spot) fyrir miðju, sem fulltrúar fyrir hina ósýnilegu liti og það sem verður ekki lýst með orðum og enginn sér á sama hátt.
Blindpunkturinn er hér upphafspunktur, miðja möguleikanna og tengipunktur hinna fjölmörgu þráða er spunnist hafa í gegnum aldirnar á sviði hins sjónræna, á sviði framtíðarmöguleika mannsins til að víkka út möguleika sína til skynjunar og aukins skilnings á því hvert ímyndunaraflið, með þekkingarbakgrunn forvera okkar sem bakhjarl, geti leitt okkur.
Birta Guðjónsdóttir

































